Ýmsar ferðasögur

Vestfjarðaferð 17-19. ágúst 2012

Dagur 1.
Við fórum 13 félagar af stað í ferð á Vestfirði fimmtudagskvöldið 16. ágúst.  Sennilega var þetta einn heitasti dagur sumarsins, en hitnn var 22-23 gráður þegar við Hittumst á N1 í Mosó.  Stefnan var tekin á sumarhöll Gulla málara við Bjarkarlund.   Í Hvalfjarðargögnum heyrðust miklar drunur þegar KTM 990 með Akropovic pústkerfi, botnaði fram úr lestinni okkar upp norðurhlutann.  Það kom síðar í lljós að þetta var leynigestur Gulla, Arnór Pálsson sem fór með okkur Barðaströndina og svo heim með Baldri daginn eftir.
Við áðum á Baulu skálanum og síðan tók við vindbarningur á leið á  Búðardal og hitastigið féll talsvert.  Við Bjarkarlund var töluvert stífur vindur og hitinn kominn í 7-8 gráður.  Gulli og Raggi grilluðu kjúkling og báru fram meðlæti.  Nokkrir félagar gistu þar inni í bústað eða í tjöldum og aðrir í Bjarkarlundi.

Dagur 2.
Veðrið var gott, búið að lygna og birta til.  Við tókum morgunmat kl 9 og vorum lagðir af stað um kl 10.  Ekið var um Barðaströnd og stoppað á nokkrum stöðum og svo á Rauðasand þar sem við fengum kaffi og vöflu í blíðu og stórkostlegu útsýni.  Áfram var haldið á Bíldudal þar sem við gistum á Eagle Fjord Hóteli hjá Jóni Þórðarsyni vert á staðnum.  Þegar við vorum búnir að koma okkur fyrir var rennt út í Selárdal og skoðað safn Samúels Jónssonar. Þá var rennt uppi að Uppsölum þar sem Gísli Gíslason bjó lengst af einn og Ómar Ragnarsson gerði landsfrægan.  Það var smá brölt og sull upp að bænum.
Um kvöldið framreiddi Jón vert fram grillað lamb með öllu þar með talið Toro bernes.  Við fengum að sjá Videolistaverk og gjörning um fossinn Dynjanda.  Þá tóku við glasalyftingar eitthvað fram á kvöld og nótt hjá sumum.

Dagur 3.
Logn sól og hlýtt og Arnarfjörðurinn spegilgljáandi.  Mogunatur kl 9 og af stað um kl 10.  Við fórum fyrir fjörðin og upp á Dynjandisheiði. Stórbrotið útsýni og blíða.  Við fengum kaffi og vöflur á Hrafnseyri og fengum að skilja töskur og dót eftir því nú átti að fara Lokinhamraveg eða Kjaransbraut. Vegurinn er hrikalegur á köflum. Það kom einhver snillingurinn með þá hugmynd að gera videomyndband, kynningu fyrir klúbbin um þessa leið, þannig að við skrögluðumst þetta með mörgum hléum, meðan leikstjórinn Kristján Gíslason gestur aðstoðarleikstjórans Guðmundar Ragnarssonar lagði línurnar með skotin. Þetta verður án efa gaman að sjá síðar.  Eftir ævintýralegt fjörubrölt áðum við úti á nesinu í 19 gr. hita sól og logni.  Áfram á Þingeyri og sóttum dótið á Hrafnseyri og síðan á Ísafjörð þar sem við gistum á Hótel Eddu.  Borðuðum á Tjöruhúsinu um kvöldið, alveg einstakt fiskihlaðborð.  Síðan fór hluti hópsins á krá og svo í koju.

Dagur 4.
Vöknuðum snemma og flestir voru komnir í morgunat fyri kl 9.  Enn sama blíðan.  Lögðum af stað upp á Bolafjall og svo Skálavík.  Til baka til Ísafjaðar og svo djúpið þar sem áð var við Selslátur og í Ögri þar sem er “bílasafn”- eða þannig, safn af bílum sem flestir eru haugamatur.  Við fengum Kaffi og hlaðborð á Hótel Reykjanesi.  Hluti hópsins fór áleiðis suður en annar hluti fór áleiðis í Kaldalón og Unaðsdal.  Þá gistu þeir sem aldrei fóru suður hjá Erninum á Hrófá ( BMW-félagi Örn Svavarsson).  Örn reiddi fram miklar kræsingar og vel valda smurolíu með.

Dagur 5.
Vaknað snemma á Hrófá og snætt morgunverðarhlaðborð. Örn bættist nú í hópinn og síðan var ekið upp Strandir alla leið í Ófeigsfjörð með viðkomu í Norðurfirði.  Seinnipartinn var haldið áleiðis suður.

(Sjá myndir í myndaalbúm)

Norðausturland 2.-5. september 2011

Föstudaginn 2. sept lögðu af stað frá Reykjavík 9 BMW fákar úr Reykjavík. Á Akureyri bættist svo einn enn í hópinn á laugardagsmorgni. Á föstudagskvöldið hittust flestir leiðangursmenn ásamt Jóa Ásmunds, á Bautanum á Akureyri, en hann komst því miður ekki með okkur í þessa ferð. Að þessu sinni komu tveir utanfélagsmenn með í ferðina, Guðmundur Reykjalín (sá sem keypti F800 hjólið hans Ragga) og Gulli málari (sem keypti 1200 GSA hjólið hans Guðmundar Ragnars – svona fyrir þá sem eru með “ættartölur” BMW hjóla á Íslandi á hreinu).

Þessi góði hópur lagði af stað frá Akureyri um kl. 10 á laugardagsmorgni, en eftir stuttan túr bilar hjólið hans Hólmars og nú voru góð ráð dýr. Þarna var síðari skipuleggjandi ferðarinnar að detta úr skaftinu í sömu ferðinni. Eftir góð ráð frá Eyþóri og einstaka hjálpsemi Páls Kára var hægt að koma málum þannig fyrir að Hólmar fór í bæinn sótti bilaða hjólið á trukknum hans Páls Kára í Vaðlaheiðina og fékk lánaðan forláta “krossara” til að geta komist með í ferðina. Hinir félagarnir fóru sem leið lá til Húsavíkur og þaðan áleiðis upp á Þeistareykjasvæðið. Þar var þvælst fram og tilbaka. Einhverjir villtust og aðrir lögðust á hliðina í miserfiðum leiðum. Sem betur fer varð enginn sjáanlegur skaði á neinu sem heitið getur (helst svona sjálfsmynd einstaka félaga svolítið löskuð). Veðrið var ekki endilega það léttasta fyrir þessar aðstæður en það var bæði þoka og rigning en þó logn allan þann tíma sem ekið var um þessa einstöku hjólaleiðir á Þeistareykjum.

Um kvöldið safnaðist hópurinn saman í Keldunesi (sjá keldunes.is – getum alveg mælt með þessum stað) þar sem við lögðum undir okkur gestahúsið með setustofu, matsal, grilli og síðast en ekki síst heitum potti. Eftir að félagar höfðu hvílt lúin bein og fengið einn kaldann í pottinum var farið að grilla forláta Nauta-ribeye. Þessar steikur höfðu fengið mjög sérstaka meðhöndlun sem fólst í því að hrista þær um hálft landið og um hrjóstrugar sléttur Þeistareykjasvæðisins. Meðlætið var svo „cream spinach/brokkoli“ dúett, salat og bakaðar kartöflur að ógleymdri „bearnessósu from scratch“ að hætti Bautans. Þessu báru ábyrgð á Raggi yfirkjötmeistari, Örn spergilmeistari og Stefán sauchechef. Stóðu þeir sig með stakri prýði og munu sennilega ekki losna úr þessum hlutverkum í framtíðarferðum klúbbsins.

Eftirréttur var svo gerður úr afgöngum sérstakur „Special K mjúkmarengsbotn“ með rommblandaðri súkkulaðisósu. Þetta rann líka ljúflega niður í mannskapinn. Guðmundur Ragnarsson beitti samböndum og bauð okkur upp á rauðvínskynningu með matnum sem fékk góðar undirtektir.

Morguninn eftir laugardaginn 3. september var haldið af stað eftir morgunmat sem leið lá yfir Öxarfjarðarheiði til Þórshafnar þar sem hádegisverður var snæddur í N1 á Þórshöfn. Þaðan var svo lagt af stað út á Langanesið. Eitthvað hristist úr hópnum þarna en vegurinn var nokkuð blautur og ekki of auðveldur yfirferðar. Út í Font komust þó flestir. Skyggni var hins vegar lítið, þoka og léttur úði á nesinu sjálfu. Heimleiðin gekk vel. Menn völdu sér þá leið sem hentaði þeim best. Logi og Hólmar fóru aftur Öxarfjarðarheiðina (enda snilldar BMW leið), aðrir fóru Hófaskarðsleiðina og þriðji hópurinn fór Sléttuna með viðkomu á Raufarhöfn. Áberandi var hvað sá hópur var einstaklega ánægður með sig þegar heim var komið. Greinilegt er að Raufarhöfn stendur alltaf fyrir sínu.

Heima í Keldunesi var aftur grillað – en að þessu sinni sáu hjónin Sturla og Bára um að grilla í mannskapinn eitthvað af nýslátruðum lömbum úr bústofni heimilisins. Það var líka klassamáltíð í þakkláta maga.

Á mánudagsmorgni var svo komið að heimferð. Ragnarsson var með harðan áróður fyrir því að fara nú austur fyrir heim til Reykjavíkur. Það hafðist nú ekki hjá honum að þessu sinni. En hann gæti átt eftir að skreppa hringinn aftur áður en snjóa festir.

Byrjað var á heimsókn í Ásbyrgi til að sýna Guðmundi Trausta þetta svæði en hann hafði aldrei orðið svo frægur að komast inn að tjörn í Ásbyrgi. Það var upplifun fyrir hann og aðra, enda er Ásbyrgi einstakur staður á Íslandi. Því næst var farið inn í Hljóðarkletta inn í Vesturdal. Þar var gengið um og kyrrðarinnar notið í góða stund enda vorum við allt að því einu ferðamennirnir þar á ferð. Loks var haldið áfram inn að Dettifossi. Nokkrir úr hópnum höfðu ekki áður séð Dettifoss frá bakkanum vestan megin og var það töluvert sjónarspil. Vegurinn upp að Dettifossi var skemmtileg leið hvort sem menn voru reynslumiklir eða ný sloppnir á mölina. Hins vegar var mál manna að þeir hefðu aldrei séð áður eins langar breiður af þvottabrettum og á þessari leið. Allar leiðir eiga jú sinn sjarma ekki satt.

Við Mývatn var áð og þar bauð Raggi upp á samlokur úr ribeye steikum laugardagskvöldsins. Versta var að flugurnar við vatnið höfðu heyrt af þessari veislu og mættu í þykkum skýjum til að taka þátt í gleðskapnum. Þarna var Hólmar drullumallari sóttur en restin af leiðangursmönnum lögðu af stað til Reykjavíkur – saddir, sáttir og reynslunni ríkari.

Akstur í þessari ferð er metinn um það bil 1500-1600 km.

Leiðangursmenn voru: Guðmundur Trausta, Guðmundur Ragnarsson, Logi, Örn , Stefán S.,Raggi S, Páll Kári, Guðmundur Reykjalín, Gulli málari og Hólmar.

Norðurlandsferð 2010

Þann 27. ágúst lögðu 5 félagar okkar af stað úr Reykjavík síðla dags. Í þessu holli voru Logi, Ragnar, Guðrmundur Tr., Axel og sonur Axels, Grímur á hinni frægu Apríllu. Ferðinni var heitið norður í land að hitta félagana og taka túr um norðurlandið. Komið var við á Kaldadal sem bar víst nafn með rentu það kvöldið. Leiðin norður yfir var grýtt en ekkert sem þvælist fyrir slíkum görpum á hjólum frá BMW 🙂  Reyndar fékk Apríllan stein í vatnskassa og smá strögl var að ná að þétta kassann svo hægt væri að halda áfram.  Um kvöldið var gist í huggulegri sveitagistingu og allir sáttir. Næsta dag var ákveðinn hittingur við félaga okkar af Suðurnesjum Jón Emil  og Hermann ásamt norðanmönnum og fararstjórum þessarar ferðar Jóhanns og Hólmars á Sauðárkróki. Þangað komu allir um 15:00. Hermann og Jón Emil komu yfir Kjöl niður í Mælifellsdal. Flott leið sem hægt er að mæla með. Eftir kaffi hjá óðalssetri Ragga á Króknum var haldið af stað yfir Fljótin. Sundlaugin á Hofsósi skoðuð en ekki náðist að dýfa sér í hana að þessu sinni. Haldið eins og leið lá að afleggjaranum við Siglufjörð. Frekar kalt var í veðri en sólin var tekin að skína svo það var ákveðið að við myndum renna yfir Siglufjarðarskarðið yfir til Siglufjarðar. Þegar þangað var komið var gerð lokatilraun að sjá hvort hægt væri að renna í gegnum Héðinsfjarðargöngin en þar sem verið var að malbika göngin slapp það ekki til í þessari ferð. Útsýnið í Skarðinu sjálfu var æðislegt og sást yfir að Hornbjargi í blíðunni. ( Sjá flottar myndir í myndabanka).
Eftir stutt stopp var rennt gegnum Strákagöngin yfir Skriðunar og var það líka skemmtileg hjólaleið en á allt annan hátt. Haldið var eins og leið lá yfir Lágheiðna niður á Ólafsfjörð, gegnum Dalvík og til Akureyrar.

Þegar allir voru búnir að skola af sér ferðarykið var hist heima hjá Hólmari í fordrykk áður en farið var á Greifann í síðbúinn kvöldverð. Þetta var góður dagur en töluvert langur akstur sérstaklega fyrir suðurnesjamenn eða hartnær 600 km. en það sást nú ekki á þeim. Kvöldið endaði svo í vígslu á Menningarhúsinu Hof á Akureyri og var þar mikið um að vera, svo mikið að sumum varð á orði að við Jói hefðum nú haft fullmikið fyrir móttökum félaganna að sunnan.

Sunnudaginn 29. ágúst var svo ákveðið að hittast um 8:30 og leggja í hann upp úr 9.  Öllum að óvörum var úrsmiðurinn okkar seinn fyrir þennan morguninn og því náðum við ekki að komast úr bænum fyrr en laust fyrir kl. 10.  Þá var ekið fram Eyjafjörðinn eins og heimamenn segja. Svo var hleypt úr dekkjum og lagt á fjallveginn upp úr Eyjafirði. Veður var milt smá rigningarúði á kafla en þetta var fallegt og gott ferðaveður. Einhverjir höfðu áhyggjur af fjallveginum upp á hálendið en með góðum stuðningi og hóflegum ferðahraða fóru allir leiðangursmenn þetta án nokkurs vanda. Þegar upp var komið var aðstaðan í Laugarfelli tekin út. Höfðu fæstir komið þarna áður og þótti mikið til þessarar náttúruperlu koma.

Að loknu kaffi var haldið aftur af stað. Jón Emil tók smá “fellu” svona rétt til að sýna okkur hvernig á að leggja sig ofurvarlega í götuna fyirr túristana. Þetta gerðist rétt framan við rútu svo það var auðvitað klappað fyrir tilþrifunum þegar hann stökk á fætur ómeiddur. Enginn er verri þó hann detti, nema hann brotni. Svo lá leið inn á Sprengisandsleið niður með Skjálfandafljóti að Aldeyjarfossi sem var um langt skeið fallegasti foss landsins 🙂  Einhverjir eru reyndar á því að þar séu einna fallegustu stuðlabergsmyndanir á Íslandi. Þetta verður fallegt þar til Skjáfandafljótið verður virkjað!

Raggi var formlega færður upp um flokk og er nú fullfær í íslenska fjallvegi af öllum tegundum. “Af – Harleyjun” (sbr. afdjöflun) Ragga er því á góðri leið.

Næsta stopp var svo Fosshóll en þar var ákveðið að fara ekki í gegnum Þeistareykjasvæðið eins og áætlað var heldur keyra niður með Vestmannsvatni að Laxárvirkjun inn á Hólasandi um Kísilveginn upp í Mývatnssveit. Leiðin vestan við Vestmannsvatn sem Guðmundur okkar Ragnarsson hafði bent okkur á var einstaklega fallegur gamaldags slóði sem þurfti auðvitað að hafa svolítið fyrir.

Í Mývatnssveit var farið í Jarðböðin og slakað vel á í lóninu. Eftir það borðuðum við í Dimmuborgum með fallegt útsýni yfir Mývatnið. Svo var haldið heim til Akureyrar í haustmyrkrinu með ánægjubros eftir skemmtilega daga. Þessi dagur var tæplega 380 krm dagur sem telst nú gott á þessum vegum.

Ferðinni lauk formlega á mánudagsmorgni þegar allir hittust í morgunkaffi og ákváðu að þetta væri stórvelheppnuð ferð og ákveðið var að taka annan norðurlandstúr að ári og jafnvel vera aðeins lengra fyrir austan í það skiptið. Okkur er strax farið að hlakka til.

HS

Ferðin í Þakgil tókst með ágætum.

Lagt var af stað eins og fyrirhugað var kl. 9 og voru sjö í hópnum en á Selfossi bættist Guðmundur Ragnarsson í hópinn. Veðrið var frekar þungbúið er við lögðum á Hellisheiðina en þar fengum við súld sem breyttist fljótlega í þétta rigningu sem hélst alla leið í Vík í Mýrdal. Við áðum á Hvolsvelli og tókum þar ákvörðun um að geyma að skoða Landeyjarnar þar til síðar. Eftir að hafa borðað góðan mat í Vík fengum við fréttir af veðri á Kirkjubæjarklaustri og voru þær fréttir mjög gleðilegar sól og hiti, þannig að við hentumst af stað og viti menn þegar út á sandinn var komið brast á hitabylgja 21stigs hiti logn, sól og lúpínuangan í loftinu.

Við komuna á Klaustur hitti undirritaður vinkonu sína sem er forstöðukona fyrir dvalarheimilið og bauð hún hópnum í kaffi og útsýnistúr á dvalarheimilið sem við þáðum og eftir að hafa notið góða veðursins í nágrenni við Systrastapa mættum við á dvalarheimilið. Þar var boðið upp á kaffi og meðlæti síðan heilsuðum við upp á heimilisfólk. Margir komu með okkur út og skoðuðu hjólinn.

Þá héldum við niður í Meðalland og ókum þar einhverja 30km á grófri möl sem var bara gott, því eins og við segjum er möl málið. Síðan héldum við upp í Þakgil og var vegurinn góður malarvegur og mjög skemmtilegur hæðóttur, bugðóttur og fallegt útsýni. Í Þakgili áttum við skemmtilegar stundir og grilluðum inni í helli.

Daginn eftir var haldið heim á leið í tveimur hópum. Annar fór niður í Landeyjar en hinn héllt seinna af stað en síðan sameinuðust hóparnir á Hvolsvelli og óku til Reykjavíkur. Undir Eyjafjöllunum fengum við smá smjörþef af ösku sem vindurinn blés yfir veginn þannig að við fengum allar gerðir af veðri en í minninguni er ég viss um að ferðarinnar verður minnst fyrir skemmtilega ferðafélaga fallegt umhverfi og krefjandi akstur.

Axel Eiríksson.

HJÓLAÐ UM SKOTLAND, VORIÐ 2010

FERÐASAGAN ER HÉR
SkotlandFerdasaga

(í pdf-sniði, auðvelt að prenta út)

HRINGFERÐ UM LANDIÐ Í ÁGÚST 2009

Ferðasaga Hilmars Jónssonar

FERÐ Á NORÐAUSTURLAND 2009

Ferð þessi sem sett var á dagskrá 22. mars s.l. – og hefur gengið undir nafninu “Loga-ferðin” síðan – var farin snemma dags föstudaginn 21. ágúst – og er síðasta ferðin á vegum ferðanefndar sem kynnt var í Skerjafirðinum s.l. vor.

Þetta er eina ferðin á vegum ferðanefndar þetta árið sem er úthlutuð einum ábyrgðarmanni af ferðanefnd – sem að sjálfssögu var Logi – allar aðrar ferðir ferðanefndar höfðu tvo slíka – þótt styttri væru. Logi stóð svo sannanlega fyrir sínu.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að sameina ferð götuhjóla og GS hjóla með þeim hætti að GS hjólin færu Sprengisand eða þá Kjöl en götuhjólin færu veg nr. 1 – svo myndu þessir tveir hópar hittast á kvöldin. GS mennirnir guggnuðu á mölinni þannig að allir fara þjóðveg nr. 1 norður.

Nokkrir höfðu helst úr lestinni miðað við þá sem lýstu áhuga sínum á að fara. Ýmsar ástæður voru fyrir því eins og gengur en það er greinilegt að GS menn eru búnir að fá nóg í sumar og þrátt fyrir að eiga þann möguleika að fara Sprengisandi norður – og svo frá Kárahnjúkum í Svartárdal – ásamt slóðum í Suðurdal og Norðurdal (Glúmstaðadal) – ásamt akstri á malarvegum á norðsuaturhorninu svo og á Hellisheiði eystri, sem er á dagskrá þessarar ferðar og hefur verið frá upphafi.

Fjórir fara saman frá Reykjavík en gert var ráð fyrir að hitta þrjá félaga á Akureyri þá: Gísla Jón Þórðarson, Hólmar Svansson og Jóhann Ásmundsson.

Hópurinn sem samanstóð af fjórum galvöskum hjólamönnum hittist á N1 í Mosfellsbæ tilbúin í þessa stóru ferð, voru: Guðmundur Traustason, Hilmar Jónsson, Logi Guðjónsson og Njáll Gunnlaugsson.

Lagt var í hann í þokkalegu veðri og spáin var góð fyrir fyrsta hluta ferðarinnar frá Reykjavík og til Akureyrar, skoða safnið hens Heidda of svo áfram að Sandi í Aðaladal þar sem áætlað var að gista fyrstu nóttina af þremur í þessari ferð.

Fyrsta stopp var að Baulu og menn fengu sér kaffi og spjall, á Staðarskála var tankað og svo stoppað í Víðigerði í Víðidal í mat. Þá var farið að rigna aðeins svo menn gerðu ráðstafanir. Áfram ekið og beygt af vegi 1 inn Svínadal, framhjá Húnavallasskóla og niður í Blönduhlíð og þaðan út á veg 1 aftur.

Stutt stopp í Varmahlíð þar sem keyrt var utan í hjól Njáls – sem skemmdist ekki sem betur fer.

Á Akureyri fórum við beint í að skoða byggingu hjólasafnsins  (Mótorhjólasafn Íslands), sem er að rísa þar. Jóhann Freyr Jónsson sem sér um uppbyggingu safnsins sýndi okkur húsið og skýrði – endilega að skoða: http://www.motorhjolasafn.is/.

Á eftir bauð Jóhann okkur heim til sín í kaffi. Heimili Jóhanns er sérstakt svo ekki sé meira sagt – það eru mótorhjól í öllum herbergjum – mjög snyrtilega komið fyrir og sérstaklega gaman að skoða og heyra sögur, sem hann kunni af öllum hjólunum. Bílskúrinn hans var líka fullur af mótorhjólum sem voru á ýmsum stigum lagfæringar – allt frá því að vera í þúsund pörtum – í að vera tilbúinn til aksturs og á safnið.

Jóhann hjólaði svo með okkur í húsnæði sem hýsir nokkra tugi hjóla sem eru á leiðinni í safnið, þarna voru hjól sem Heiddi heitinn var búinn að sanka að sér. Öll eru þau á leiðinni á safnið sem áætlað er að opna að hluta til á næsta ári.

Við kunnum Jóhanna Frey miklar þakkir fyrir móttökurnar, kaffið, sögurnar og allt.

Þá var ferðinni heitið að Sandi í Aðaldal en þar ætluðum við að gista fyrstu nóttina. Ferðin þangað gekk vel og nú var Gílsi Jón Þórðarson félagi BMW félagi komin í hópinn á sínu hjóli en hann og félagi hans Jón Bragi Gunnarsson (hann var á bíl),voru með okkur á safninu á Akureyri. Hópurinn var þá orðinn sex manns.

Síðasta spölinn heim að Sandi var ekið eftir gamalli skógargötu sem mönnum þótti mjög sérstakt og gaman.

Frábær aðstaða beið okkar að Sandi, eins manns herbergi fyrir hvern og einn fyrir kr. 1,500,-. Þá komu frændur Njáls með hreindýrakjötssteikur sem ættaðar eru frá Grænlandi ásamt lambakjöti sem framleitt er af eigendum staðarins ásamt kartöflusalati salati og sósu – kjötið var grillað og líkaði mönnum mjög vel.

Spjall eftir matinn í stofunni – þrír fóru í stutta veiðiferð.

Farið var yfir áætlun næsta dags og kannað með færð. Þá kom í ljós eftir samtal við starfsmann Vegagerðarinnar á Húsavík og heimamenn – að ekki var talið fær leiðin sem áætlað var að fara að vestanverðu við Jökulsá á Fjöllum, sama átti við um leiðina austanmegin. Þá var Öxarfjaðarheiðin talin vera full af vatni og ekki talið rétta að fara áætlaða leið vegna þessa. Ástæða þessa var fyrst  og fremst vegna votviðris.

Planið var því að fara á Mývatn um morgunin og hitta tvo félaga okkar þar og fara að Kröflu, keyra Mývatnsöræfin og Vopnafjarðarheiði og svo plana af fingrum fram eftir því hvernig gengi og hvaða möguleikar kæmu upp.

Akstur dagsins samtals: 505 km

BUSL             473 km             93,7%

MÖL                 32 km               6,3%

Dagur 2                                                                                                                       

Við vöknuðum á milli kl. 8 – 9 þennan morgunin – tókum saman okkar dót og bjuggumst  til brottfarar. Þá kom í lós að allt rafmagn var farið af rafgeyminum á hjólinu hans Loga – og eftir að tilraunum til að ýta því í gang gengu ekki var leitað að startköplum á bænum – til að starta því í gang.

Við kvöddum Gísla Jón og félaga hans Jón Bragi Gunnarsson á hlaðinu á Sandi og héldum áleiðis að Mývatni – með bensínáfyllingu að Laugum.

Við hittum þá Hólmar Svansson og Jóhann Ásmundsson BMW félaga okkar sem ætluðu að vera með okkur – þannig að við vorum aftur orðnir sex manna hópur.

Eftir morgunmat í Reynihlíð var hjólað að Kröflu og við skoðuðum Leirhnjúk í fjarlægð. Svo var brunað Mývatnsöræfin og yfir á Vopnafjarðaheiðina. Þar bilar hjól Hólmars – þannið að það gengur risjótt en kemst þó til Vopnafjarðar. Hilmar dettur á sínu hjóli í möl en skaðast ekki – frekar en hjólið.

Á Vopnafirði kom í ljós að geymasamband á hjóli Hólmars var brotið – það var lagað. Hópurinn fór í sund í Selárdalslaug – frábær laug – þar áttum við góða stund, og þarna var boðið upp á kaffi við laugina og pottana – gaman að koma þarna við og ekki veitti af að skola af mannskapnum.

Eftir sundlaugarferðina var tankað og svo var lagt í hann og farið yfir Hellisheiði-eystri – hrikaleg heiði 656 metra há – hæsti fjallvegur í byggð á landinu. Það var búið að vara okkur við lausamöl á heiðinni vegna mikilla rigninga undanfarið en ferðin gekk vel hjá öllum. Þessi vegur er frábær og gaman að hjóla hann og ekki skemmir útsýnið heldur.

Ekið niður Hróarstunguna og framhjá Svartaskógi. Meiningin var að fara á Borgarfjörð eystri og við vegamótin á veginum frá Hróarstungu þá kvöddum við Hólmar – sem þurfti að komast í matarboð á Akureyri um kvöldið – og einnig Njál sem ákvað að fara áfram suður á boginn.

Þarna voru fjórir eftir

En vegna misskilnings þá beygðum við ekki á réttum stað til að fara á Borgarfjörð svo við enduðum því á Egilsstöðum.

Þá kom Njáll aftur í hópinn og var ákveðið að fara í Kárahnjúka – en áður en þangað var haldið fórum við í hlaðborð á Hótel Hallormsstað og svo upp í Kárahnjúka, en það eru 72 km frá hótelinu aðra leiðina.

Með sólina meira og minna í andlitið upp að Hálslóni, þá var sjónarspilið mjög fallegt – Snæfell í kvöldsólinni og svo ekki síður Herðbreiðin drottning fjallanna – fallegt sjónarspil.

Í myrkri klukkan rúmlega 22 komum við í búðirnar í Fljótsdal – búðir sem voru notaðar fyrir starfsfólk sem vann við Fljótsdalsvirkjun við Teigsberg. Þarna fengum við eins manns herbergi hver maður – setustofu og mjög góða aðstöðu fyrir 2,000,- pr. mann.

Menn sátu lengi þetta kvöld við spjall og “bjórsvall” til klukkan tvö um nóttina – frábær dagur að baki og menn mjög ánægðir með hann.

Verður þennan dag var mjög gott nánast heiðskýrt og góður hiti.

Akstur dagsins samtals: 461 km

BUSL            326 km            70,7%

MÖL              135 km            29,3%

Dagur 3                                                                                                                       

Menn leyfðu sér að sofa út þennan morgunin, Njáll fór þó um kl. 10, áleiðis suður. Við hinir fórum að týgja okkur um 11,30.

Þá missti hjól Loga aftur rafmagn og þrátt fyrir tilraunir til að ýta því gang þá gekk það ekki frekar en daginn áður. Enginn startkapall var með í för – en lausnin var að hringja í Slóvakann sem tók á móti okkur kvöldið áður. Hann átti ekki kapal en sagðist myndu reyna að leysa málin innan 10 mínútna, sem hann gerði og kom með félaga sínum með rafmagnskapal sem þeir gerðu að startkapli.

Soggrein á hjólinu fór úr sambandi einhverra hluta vegna og eftir barning við að koma henni á sinn stað var startað – og hjólið fór í gang – en gekk þá á 6,500 snúningum – og ekki unnt að breyta því að því er virtist – það var ekki ásættanlegt.

Þá var hringt í Eyþór – ekki í fyrsta sinn í ferðinni – og hann gaf ráð sem dugði. Ráðið var ef ég man rétt svona: “Svissa á hjólið, snúa bensínsgjöfinni 5x í botn og svo svissa á aftur og starta” – þetta gekk eftir svo að nú var haldið af stað og fyrst ekið Fljótsdalsstöð og hún skoðuð að utan – en var lokað fyrir almenning.

Á Skriðuklaustri var farið í mat enda komið hádegi og rúmlega það – eftir það keyrt í Végerði sem opnaði klukkan eitt – til að fá að fara í Fljótsdalsstöð, en þá kom í ljós að ferðir ekki í boði á þessum árstíma – næsta sumar ok.

Þá var komið að kveðjustund enn einu sinni í ferðinni. Góður félagi að fara og þetta sinn var það Jói, hann ætlaði að vera áfram á Skriðuklaustri fara á  tónleika með JayLo kl. 14,00 og svo ætlaði hann heim á Akureyri.

Við vorum nú orðnir þrír, Guðmundur, Hilmar og Logi – og ferðinni haldið til Egilsstaða og þaðan í gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin, Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík, þar sem stoppað var til að tanka.

Veðrið ennþá gott og stefnan tekin á N1 skálann í Nesjum þar sem við ætluðum að plana áfram.

Í skálanum fengum þær upplýsingar að það væru miklir sviptivindar í Öræfum allt að 26 metrar og mikil rigning og eftir hringingar í Veðurstofuna og víðar þá ákváðum við að gista á Höfn um nóttina og halda af stað daginn eftir. Njáll komst heim þennan dag “eftir barning” að hans sögn. Tvö mótorhjól fuku út af veginum á þessum slóðum þennan dag.

Við gistum á Hótel Höfn – borðuðum þar um kvöldið og fórum snemma í háttinn.

Akstur dagsins samtals: 289 km

BUSL            209 km            72,3%

MÖL                74 km            27,7%

Dagur 4                                                                                                                       

Ekki var veðrið gott þennan morgunin á Höfn í Hornafirði, grenjandi rigning og rok. Eftir morgunverð og tölvuskoðun var ákveðið að halda af stað klukkan 11,45 – en spár gerðu ráð fyrir að það myndi lægja um það leyti og að við myndum fá þokkalegt veður til Reykjavíkur.

Af stað var haldið – kl. 11:55 – þrátt fyrir mikla rigningu og vind, sem jókst eftir því sem lengra var ekið, eftir stutt stopp við Freysnes var haldið að Kirkjubæjarklaustri. Þar fengu menn sér hressingu og svo áfram og næsta stopp var á Hvolsvelli. Þá var veðrið orðið þokkalegt.

Hópurinn var svo tekið fyrir of hraðann akstur við Landvegamót – rétt vestan við Rauðalæk – en sleppt – þau sögðu að við hefðum verið á 112 km.

Siðasta stoppið var á Selfossi og þaðan ekið til Reykjavíkur og stoppað við Rauðavatn kl. 18:05 – ferðinni lokið, aksturinn frá Höfn hafði því tekið sex klukkustundir og tíu mínutur með stoppi, þrátt fyrir óhagstætt veður.

Frábærri ferð með mjög góðum ferðafélögum var lokið og eftir eru góðar minningar félaganna og þennan frábæra klúbb okkar – meira að þessu!

Akstur dagsins samtals: 458 km

BUSL             453 km             98,9%

Möl                    5 km                1,1%

Samtals ekið í ferðinni:  1,707 km

BUSL            1.461 km            85,6%

MÖL                246 km             14,4%

Þátttakendur í ferðinni:

Gísli Jón Þórðarson,

Guðmundur Traustason,

Hilmar Jónsson,

Hólmar Svansson,

Jóhann Ásmundsson,

Logi Guðjónsson,

Njáll Gunnlaugsson.

og Jón Bragi Gunnarsson, félagi Gísla Jóns

Með kveðjum,

HILMAR JÓNSSON

FYRRI HLUTI SÍÐDEGISFERÐAR FÖSTUDAGINN 15. MAÍ

OG SEINNI HLUTINN FÖSTUDAGINN 5. JÚNÍ 2009

Það voru þrír galvaskir hjólamenn á BMW-fákum sem tóku sig til föstudaginn 5. júní s.l. og kláruðu seinni hluta síðdegisferðar sem farin var föstudaginn 15. maí 2009. Veðrið þennan eftirmiðdag var laust við sólskin og bláfagran himinn, en þess meira af brúnaþungu veðri sem brosti ekkert sérstaklega framan í ferðalangana.

Fyrri hlutinn var hjólaður í fádæma veðurblíðu, sólkskini og logni í ferð sem verður minnst fyrir fjallaklifur. Nokkrir hörkuduglegir bifhjólamenn studdu  fáka sína upp eina stórgrýttustu brekku á Vesturlandi – hestar hefðu komist hraðar yfir! Þeir duglegustu fóru þetta á hestöflunum og sátu fáka sína alla leið upp, meðan aðrir máttu þiggja aðstoð og stuðning. Fegnastir urðum við að komast á toppinn.

Í seinni ferðinni ætluðum við að koma við hjá Ella í Englakoti, sem braut nokkur rif í fyrri ferðinni. Hann var ekki heima, hafði brugðið sér á bæ. Síðan var ákveðið að heimsækja fyrrum bankastjóra í hálfbyggðu koti sínu, en hann var heldur ekki heima til að taka á móti þremenningunum, sem hefðu hiklaust þegið heitan kaffisopann og nokkrar kleinur, svo ekki sé minnst á hnallþórur að hætti sveitafólks. Að lokum var hjólað meðfram Langá og heim, alls um 240 km. -ee

MYNDIR ÚR FYRRI HLUTA ERU HÉR

MYNDIR ÚR SEINNI HLUTA ERU HÉR

FERÐASAGA HILMARS JÓNSSONAR:

FERÐ Á VESTFIRÐI 29. MAÍ TIL 1. JÚNÍ

Þátttakendur:

Axel Eiríksson, Guðmundur Ragnarsson, Hermann Waldorff, Hilmar Jónsson, Hólmar Svansson, Jón Örn Brynjarsson og Logi Guðjónsson

Þá var Gísli Ásgeirsson félagi í Mótorhjólaklúbbnum Þeysi á Patreksfirði samferða okkur vestur.

Þorvaldur Stefánsson í Otradal tók svo þátt í ferðinni dagana fyrir vestan.

Föstudagur
Lagt var af stað frá N1 í Mosfellsbæ klukkan rúmlega tvö á föstudeginum 29. maí og var það breyting frá áætlun sem var vegna þess að Hólmar kom fljúgandi frá Akureyri og komst ekki fyrr og hópurinn sem ætlaði að fara seinnipartinn þennan dag fór með okkur að Páli Kára undanskildum, sem hefur meiri áhuga á reiðhjólamennsku þessa dagana..

Mikill hugur var í mönnum þrátt fyrir rigningu í upphafi og sem raunar einkenndi ferðina alla leið vestur þennan dag.

Fyrsta stopp var á Bifröst þar sem Grímur sonur Axels er við nám og menn fræddust örlítiðum staðinn og dukkum kaffi og kökur.

Þar kom í ljós að framdekk á hjóli Hilmars lak, hjólið lak með felgunni – reynt var að þétta lekann með því að loftæma og dæla aftur í dekkið og eftir bras var ákveðið að pumpa vel í dekkið og sjá til, loftdæla var með í ferðinni þannig yrði unnt að dæla í dekkið á leiðinni ef þess gerðist þörf.

Næsti áfangastaður var Búðardalur þar var gert við dekkið og verslað í nesti í Vínbúðinni. Enn var rigning og mikið rok á köflum – en áfram var haldið og næst stoppað að Skriðulandi til að tanka.

Nú var framundan akstur um firðina og að Flókalundi sem er 150 km og þar af 80 km á möl. Ferðin þangað gekk vel – mikið rok og rigning á seinnihluta leiðarinnar, bensínstopp á Flókalundi og svo áfram yfir upphaf Dynjandisheiðar og þaðan yfir Trostansheiði og til Bíldudals – þessi leggur er 44 km langur og allt á möl. Kaflinn á Trostansheiðinni og til Bíldudals var erfiður mikil rigning og rok, rásir og leiðinlegur vegur, en það voru ánægðir ferðalangar sem lögðu hjólunum á bílastæðið við blokkina hjá Jóni Þórðarsyni á Bíldudal klukkan að veða níu eftir ca. 7 klst. ferð. Við fengum tvær íbúðir til afnota þessa daga – frábær aðstaða.

Við höfðum pantað síðbúinn mat á veitingahúsinu Vegamót og þangað keyrði Jón Þórðarson okkur og Þorvaldur Stefánsson sem kom til okkar í matinn og það var mikið spjallað yfir mat og drykk og næsti dagur skipulagður.

Þegar heim var komið var áfram spjallað undir glasadyn aðeins frameftir.

Skemmtilegur en erfiður dagur að kveldi kominn – allir sáttir og menn fóru inn í draumalandið með tilhlökkun um næsta dag.

Laugardagur
Laugardaginn hófst með ferð til Þorvaldar í Otradal. Hann sýndi okkur R hjólið sitt og fleira dót, en svo var ekið af stað í ferð dagsins sem var til Patreksfjarðar að hitta mótorhjólamenn í klúbbnum þar – Þeysi. Þeir tóku á móti okkur á besínstöðinni og þar áttu menn og konur góða stunda saman og svo fór svo hópurinn af stað inn Patreksfjörðinn að skipsflaki sem þar er – Garðar BA – en þar endar malbikið og ekki farandi lengra á krómhjólum sem eru þau hjól sem heimamenn nota – sem er illskiljanlegt.

Þeir sem fóru úr okkar hóp héldu áfram – en Axel og Hilmar fóru á Stuttmyndahátíðina á Patró.

Ekið var út á Látrabjarg með viðkomu á safninu á Hnjóti, sem menn skoðuðu. Þar varð Hólmar fyrir því óhappi að “hnjóta” um mishæð á veginum og skondraði einhveja metra en slapp við skrámur en það er ekki að hægt að segja sömu sögu um hjólið og hjálminn, sem rispuðust aðeins.

Á Látrabjargi fengu menn sér pizzu með lunda. Sagan segir að Þorvaldur hafi áminnt Guðmund fyrir akstur – tvisvar – á þessari leið. Á bakaleiðinni tvístraðist hópurinn þar sem Guðmundur og Logi týndu hinum sem farið höfðu inn í Sauðlauksdal, svo að þeir – Guðmundur og Logi – snéru við aftur út á bjarg – að þeirra sögn – enda við hæfi að fara tvisvar á svona flotta staði í hverri ferð.

En hóparnir sameinuðust svo í kaffi hjá Helga P. formanni Þeysismanna og hans frú á veröndinni hjá þeim og svo var farið í Otradalinn til að skoða enn frekar og núna kíktum við á talstöðvarnar og loftnetstengingar ásamt jarðvarmakefinu sem hann hitar húsið með sem er einstakt hér á landi að ég hygg. Svo á Bíldudal í kvöldmat og eftir matinn fórum við í heita potta í Tálknafirði, þrír fóru hjólandi en hinir voru keyrðir af Þorvaldi.

Þeir sem hjóluðu fóru á enda vegarins innar í Tálknafirði að norðanverðu og einn fór einnig veg sem liggur í sunnanverðum firðinum, hinir komu við á pöbbnum á Tálknafirði áður en heim var haldið.

Frábær dagur endaði svo með spjalli og plani fyrir næsta dag.

Sunnudagur
Já sunnudagurinn var langur hjá sumum. Guðmundur, Hólmar og Hermann lögðu af stað klukkan sex um morgunin og fóru í Selárdal og í Uppsali, ásamt því að skoða dysina í Hringsdal og bæinn þar sem Hilmar í Morkinskinnu – Lord of the Rings – var búinn að leyfa okkur að skoða, einnig gengu menn í fjöruna. Þá fór Axel einn í Hringsdal á ókristilegum tíma, við hinir lúrðu til klukkan níu en þá var búið að panta morgunmat á Vegamótum sem nutum þessa þrjá daga.

Eftir morgunmat var enn mætt í Otradal og nú til myndatöku – sjá http://tf4m.com/archives/900 – og svo var keyrt aðeins inn í dal og möstrin skoðuð en þau eru 26 metrar á hæð – áður en haldið var á vit ævintýra dagsins.

Ekin var Trostansheiðin og Dynjandisheiði og fyrsti áningarstaðurinn þennan dag var Mjólkárvirkjun þar sem áð var stutta stund. Næst var ekið að safni Jóns Sigurðssonar að Hrafnseyri.

Áfram ókum við og beygjum að bænum Auðkúlu og var ætlunin fara Fossdalsheiði yfir í Haukadal og þaðan til Þingeyrar en við höfðum fengið fregnir af því að væri ekki fært að Svalvogum og þá leið til Þingeyrar.

Fyrst komum við að á sem allir fóru yfir og stuttu síðar komum við að annarri heldur vatnsmeiri, þá fór að fara um suma. Menn spáðu í vaðið og reiknuðu út og skoðuðu fleiri staði. Hermann fór yfir vaðið og fór létt með það, Axel valdi annan stað aðeins neðar en það drapst á vélinni og kom í ljós að vatn hafði komist inn í hana. Þorvaldur óð yfir ánna og þeir tóku úr kertin og tæmdu cylindrana og þá var kominn svo mikið adrenalín í suma að Þorvaldur og Hólmar létu vaða, en við hinir: Guðmundur, Hilmar, Jón Örn og Logi fórum til baka og keyrðum á Þingeyri.

Saga þeirra kjörkuðu var sú að þeir reyndu að fara út í Svalvoga en það reyndist ekki gerlegt og þá var reynt að fara Fossdalsheiðina en þegar upp á hana var komið þá var þéttur snjór þannig að þeir snéru við eftir erfiða ferð sem þeir segja að hafi verið það frábær að einn þeirra sagði: “ …. þetta var frábær ferð og við komumst tvisvar á heimsenda í henni”.

Þeir sem kjarklausir voru fóru á Þingeyri en þar var ekkert að fá í svanginn allt lokað enda Hvítasunnudagur og við fórum svo áleiðis á Bíldudal en ætluðum að stoppa í lauginni í Reykjafirði en hún reyndist vera og köld þannig að við fórum beint á pöbbinn okkar á Bíldudal og fengum okkur snarl. Þeir kjörkuðu komu aðeins seinna að lauginni og fundu heitann pott við köldu sundlaugina og luku miklu lofsorði á þá reynslu.

Um kvöldið fórum við á Patreksfjörð – við fengum bílinn lánaðann hjá Þorvaldi og Jón Örn keyrði og borðuðum Þorsk í boði nokkurra fyrirtækja þar – en það var liður í Stuttmyndahátíðinni sem haldinn var í þorpinu þessa helgi – Þorpið – pöbb á staðnum var heiðraður, kíkt í samkomuhúsið en þar var að byrja dansleikur, en menn voru orðnir framlágir, klukkan orðin 23:30 svo menn fóru heim. Við enduðum svo síðasta kvöld ferðarinnar við spjall í stofu annarrar íbúðarinnar eins og hina daga.

Mánudagur
Axel og Guðmundur lögðu af stað klukkan sex um morgunin og voru komnir til Reykjavíkur í hádeginu.

Við hinir lögðum af stað frá Bíldudal rétt fyrir klukkan ellefu áleiðis heim og fórum Háfdán og Mikladal til Patró, en þar á heiðinni bilaði hjól Hólmars. Hann kom því til Patró og nú upphófst pæling sem endaði með Logi dró það til snillings sem rekur lítið verkstæði á staðnum – og er hjólamaður líka – og eftir þrjá tíma gátum við svo lagt í hann heim á leið – en hjólið komst í lag með því að leggja rafmagn beint í bensíndæluna sem einhverra hluta vegna fékk ekki rafmagn á hefðbundinn hátt.

Við stoppuðum á Flókalundi í mat, svo á Skriðulandi til að tanka og loks á Baulu í Borgarfirði í pulsu.

Ferðinni lauk svo á planinu á N1 í Mosó, sá sem flesta kílómetra keyrði í þessari ferð keyrði 1.550 km – þannig má leiða klíkur á að samtals hafi verið eknir ca. 12.050 km í þessari ferð.

Frábær ferð var lokið áfallalaust og allir mjög ánægðir.

Hilmar Jónsson

ÖNNUR DAGSFERÐIN, SUNNUDAGINN 3. MAÍ 2009

Höfundur: Andrés Hafberg

Í annarri menningar og skemmtiferð BMW klúbbsins var Suðurlandsundirlendið
skoðað af þeirri kostgæfni sem ein dagstund gefur.  Farið var frá OLÍS við
Rauðavatn stundvíslega kl. 1/2tíu og hjólað að vegamótum Þorlákshafnar og
Eyrarbakka þar sem Vígsteinn Gíslason beið okkar og síðan að rjómabúinu að
Baugsstöðum.

Eftir stutt stopp var farið að Forsæti í Villingaholtshreppi.
Þar er sýningarsalurinn Tré og List með klukkusafni og uppsettu verkstæði
Sigurjóns Kristjánssonar sem smíðaði Spunavélar og marga aðra gripi og leysti flest vandamál af mikilli hugvitsemi. Synir Sigurjóns Ólafur og Albert  halda
uppi merki föður síns og hafa m.a. smíðað flugvélar.  Ólafur er með hitaskáp sem
hægt er að beygja í plexigler.; t.d. rúður á mótorhjól.

Þegar hér var komið sögu var sól í hádegisstað og mátti heyra garnagaul í
bland við vélanið Bimmanna. Félagi okkar Guðmundur Traustason þurfti að fljúga til Köben og kvaddi. Á veitingahúsinu  Gallery Pizza, Hvolsvelli voru að hætti
Ítala, snæddar ljúffengar flatbökur með margvíslegu áleggi.

Við Seljalandsfoss skiptist hópurinn,  GSarnir  fóru eftir nýjum trukkavegi
uppá Hamragarðaheiði þar sem er efnistaka fyrir Landeyjahöfn á Bakkafjöru.
Þar á grunnsævinu utanvið var þjóðskáldið Bubbi Mortens næstum drukknaður á leið af þjóðhátíð Eyjamanna. Við efnisnámuna var snjór en gott útsýni.

Síðan var rennt að Múlakoti í Fljótshlíð þar sem foreldrar Hjartar Stefánssonar
aðalfararstjóra klúbbsins búa. Hinn hópurinn fór og skoðaði samgöngusafnið á Skógum.

Stúfholt í Holtssveit var síðasti áningarstaður ferðarinnar, þar er tækjasafn og misgömul mótorhjól af ýmsum gerðum m. a. gamall BMW, Moto Guzzi Ambassador, BSA, Husqvarna, Kawasaki og Ford fallhlífajeppi frá seinna stríði.  Eftir spekingslegar umræður um hjólin og myndatökur beið kaffihlaðborð með hnallþórum og pönnukökum.  Ábúendum, sem einnig voru heimsóttir s.l. sumar, voru færðar sérmerktar könnur með merki klúbbsins.
Rann nú upp  kveðjustund og héldu menn hver sína leið, þreyttir og ánægðir
með góðan dag.
Þeim sem heimsóttir voru, ferðafélögum og fararstjórum eru færðar beztu
þakkir.
Sjáumst í næstu ferð.

Andrés Hafberg

Karlrembuferð á Látrabjarg

Sumarið 1995 ákváðum ég og tveir félagar mínir með stuttum fyrirvara að skreppa í tveggja daga ferð á Vestfirði, nánar tiltekið á Látrabjarg til að heimsækja vestasta odda Evrópu. Fararskjótinn minn var BMW R75/5 1972 árgerð sem ég hafði þá nýlega lokið við að gera upp. Við lögðum af stað á þriðjudagsmorgni í ágætisveðri en í Kerlingarskarði á Snæfellsnesi byrjaði að rigna. Við höfðum ákveðið að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur í Stykkishólmi og þegar við renndum hjólunum inn á bílaþilfarið var okkur réttir tveir vörubílastrappinn hver, til að njörva hjólin niður. Ekki veitti af, því vont var í sjóinn á leiðinni og veltingurinn mikill. Þegar við komum á Brjánslæk var orðið mjög hvasst líka en þar sem við höfðum bókað gistingu á Patreksfirði um nóttina völdum við að halda áfram. Sóttist okkur ferðin vel framan af ef frá er skilin smá töf þegar hópur kúa lokaði veginum. Virtist þeim vera eitthvað uppsigað við okkur og vildu ekki færa sig þótt við flautuðum á þær og röltu þess í stað í áttina að okkur svo að við urðum að þræða á milli þeirra. Þegar komið var upp á Kleifarheiðina var vindurinn svo mikill að við ókum stundum í logni þótt að við værum að aka á 70-80 km hraða, enda þá með vindinn beint í bakið. Við stoppuðum við neyðarskýlið á heiðinni og veltum því fyrir okkur að stoppa þar en leist ekki á að hjólin yrðu til friðs í rokinu því að skýlið var boltað niður með keðjum sem að tognaði á í sífellu, slíkt var rokið. Við héldum því áfram á Patreksfjörð og urðum fegnir að komast í hús með hjólin í skjóli upp við vegg. Morguninn eftir vöknuðum við snemma og sem betur fer hafði veðrið haft umskipti og sól skein í heiði. Eftir staðgóðan morgunverð sem samanstóð af mjólk og Wheatabix héldum við af stað inn fjörðinn að vegi nr. 612 sem er afleggjarinn til Látrabjargs. Sá vegur er um 45 km að lengd, misgóður yfirferðar en nokkuð góður framan af. Fljótlega eftir að komið er inn á hann er komið af flaki af stálskipi sem kallast Garðar og stendur þarna upprétt í svörtum sandinum. Við skoðuðum flakið stutta stund og héldum svo áfram. Fljótlega tekur gulur sandur við af þeim svarta svo að í stutta stund er eins og ekið sé í gegnum hluta Afríku en ekki verst stadda odda Evrópu. Eins ólíklegt og það hljómar er malbikuð flugbraut í miðjum sandöldunum. Áður en haldið er upp á heiðina á lokakafla leiðarinnar er komið að Hnjóti, byggðasafni sem að geymir meðal annarra muna, tvær gamlar flugvélar, DC-þrist og gamla rússneska tvíþekju. Erfiðasti hluti leiðarinnar er eftir þennan merkilega stað. Fyrst hlykkjast grófur vegurinn upp á heiðina og svo niður aftur að Hvallátrum. Þaðan er ekið nánast í hvítum sandi strandarinnar að gömlum verbúðum áður en ekið er fyrir nesið og svo upp að Bjargtanga, vitanum við rætur Látrabjargs.

Komið var fram að hádegi þegar við lögðum hjólunum á bjargbrúninni og gáfum við okkur góðan tíma til að skoða bjargið og fuglalífið þar sem er eins stærsta fuglanýlenda Norður-Atlantshafsins. Eftir tvo tíma var kominn tími til að hjóla aftur í bæinn og við göntuðumst með það að mæta beint á Sniglafund um kvöldið, þótt aðeins væru sex tímar til stefnu. Fljótlega eftir að við lögðum af stað til baka mættum við einmanna Þjóðverja sem auðvitað var á fullbúnu BMW R100GS. Virtist hann nokkuð hissa að hitta okkur þarna og horfði lengi á hjólin okkar, gamalt BMW götuhjól og tvo japanska hippa. Eftir stutt spjall kvöddum við hann og héldum áfram. Sóttist okkur ferðin vel og stoppupum við ekki aftur fyrr en í Flókalundi til að tanka á hjólin og hreinsa flugurnar af hjálmaglerinu. Stuttu eftir Flókalund lentum við aftur í vandræðum með búfénað, að þessu sinni kindahóp sem hljóp inn á veginn neðst í malarbrekku. Félagar mínir sluppu en þar sem ég var aftastur strauk ég ekki eina, heldur tvær rollur og rétt slapp við að keyra út af veginum í tilraunum mínum til að breyta veginum ekki í sláturhús. Eftir þetta stoppuðum við ekki nema tvisvar til að fylla á bensíni og keyrðum stíft þess á milli. Segir það sitt um gamla BMW hjólið að það hélt ágætlega í við japönsku hippana og sló ekki feilpúst alla leiðina. Og nema hvað, tímáætlanir okkar stóðust og við náðum á Sniglafund um hálfníu leytið, þreyttir og rjóðir eftir allann aksturinn en ánægðir með ferðina enda býst ég við að það hafi mátt lesa á okkur.

Njáll Gunnlaugsson

Ferð 4 – Fyrsta hálendisferð BMW klúbbsins.

Ferðin var farin helgina 5. til 6. júlí. Hjólað var í Jökulheima, norðan Gjáfjalla, um Veiðivötn, í Landmannalaugar, um hlíðar Heklu, að Keldum um suðurlandsundirlendið og Þrengslin til Reykjavíkur.

Ferðin var frábær, veðurblíða og hiti yfir 20°C.

Alls voru hjólaðir um 750km og aðeins um 100km á malbiki.

Hjörtur Stefánsson.

Create a website or blog at WordPress.com

Up ↑